þriðjudagur, 25. mars 2008

Það fer að bresta á.....

Já, það fer alveg að bresta á, 30 ára stúdentsafmælið okkar. Hér ætlum við nú að hefja upphitun fyrir fjörið og bjóðum ykkur öllum að taka þátt, með því að skrifa athugasemdir hér neðan við hvern pistil. Það hefur að vísu vafist eitthvað fyrir jafnvel hámenntuðum doktor að finna út hvernig það er gert, þótt það sé eiginlega mjög einfalt.....

Eins og stendur hér í fyrri pistli þá er meiningin að skipulagið verði mjög svipað og síðast: ganga upp að skólavörðunni og partý um kvöldið laugardaginn 14. júní, óvissuferð að hætti norðanmanna sunnudaginn 15. júní, og svo MA-hátíð í Höllinni að kvöldi 16. júní. Þetta getur ekki klikkað.

Það er rétt að benda fólki á að fara að huga að gistingu fyrir norðan þessa daga, t.d. á Hótel Eddu (hér er hægt að bóka herbergi: http://www.hoteledda.is/Hotelin/Akureyri/).

Þið megið mjög gjarna senda vefstjóra myndir síðan síðast (netfangið er gudrun@stadlar.is), eða sögur og endurminningar ef slíkt er ekki horfið í djúp gleymskunnar. Og endilega tjáið ykkur í athugasemdunum.

Það eru bara rúmar ellefu vikur eftir!