sunnudagur, 27. apríl 2008

Skráning er hafin!

Jájá, skráningar byrjaðar að streyma inn, bæði í óvissuferð og á hátíðina í Höllinni (formleg skráning á hana er reyndar á Bautavefnum, sjá hér til vinstri). Endilega skráið ykkur sem fyrst, skv. leiðbeiningum í síðasta tölvupósti.

Rétt er að vekja athygli á því að öllum eldri stúdentum ber saman um að hvert stúdentsafmæli sé skemmtilegra en það síðasta. Það er held ég líka reynsla okkar sem síðast fögnuðum 25 ára afmæli - reyndar sér maður fyrir sér að það gæti orðið erfitt að toppa það, en ég er vongóð!

Kannski er óvissuferðin sem Haddi og co. eru að skipuleggja til Dubrovnik, sem við ætluðum að heimsækja í skólaferðalagi fyrir 31 ári? Það væri nú stíll yfir því! Alveg er ég viss um að það væri hægt að fara fram og til baka á 13 tímum og hafa gaman af. Flugvélamatur og bjór, dansað á ganginum í vélinni - og tánum dýft í Adríahafið í tvær mínútur eða svo. Þetta með símsvarann og rútuna er bara til að villa um fyrir okkur. Ekki satt Haddi?

Nei, trixið við óvissuferðir er einmitt óvissan - hvert verður farið. En vissan er að við verðum með góðu fólki (dööhh!), og að það verður gaman. Í þrettán tíma. Minnst.

Hvar verður ÞÚ eftir réttar 7 vikur? Í óvissuferð - nema hvað!

mánudagur, 21. apríl 2008

MA-hátíðin þann 16. júní

Nú höfum við fengið upplýsingar frá 25 ára stúdentum um fyrirkomulag hátíðahaldanna í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní.

Hátíðin mun hefjast með fordrykk í anddyri Íþróttahallarinnar um kl. 18:00 og síðan verður þríréttað glæsilegt borðhald. Árgangar sitja saman til borðs.

Á dagskrá verður söngur, ræðuhöld og skemmtiatriði, og að venju munu eins árs stúdentar fá gólfið um miðnætti til að kasta hvítu kollunum.

Dansað verður til kl. 03:00 við undirleik hljómsveitarinnar “Í svörtum fötum”. Reynt er að stilla miðaverði á hátíðina í hóf og hefur verðið verið ákveðið 8700 kr. fyrir aðra en eins árs stúdenta. Ef aðeins er keyptur miði á dansleik kostar hann 3000 kr.

Skráning á hátíðina er hafin í gegnum vef Bautans; www.bautinn.muna.is, sjá einnig tengil hér vinstra megin á síðunni. Þar má einnig finna matseðil kvöldsins, sem er glæsilegur að vanda.

Það er ekki eftir neinu að bíða með að skrá sig!

sunnudagur, 20. apríl 2008

Vissa um óvissu.....

Jæja gott fólk. Nú er farin að skapast einhver vissa í kringum óvissuferðina okkar sem fyrirhuguð er þann 15. júní næstkomandi. Ónefndur tannlæknir á Akureyri, sem gat sér nokkuð gott orð með skipulagningu óvissuferðar fyrir fimm árum, hefur eitthvað verið að spá í hlutina með fleiri norðanmönnum og vill nú koma eftirfarandi á framfæri:

- það verður mjög mjög gaman og menn fá mikið fyrir peninginn sem þetta kostar,
- útivist, létt hreyfing (Mullers-æfingar (sitjandi eða liggjandi) að beiðni Friðjóns), fagurt landslag (enda fyrir norðan), skemmtilegt fólk (við), söngur (Emma, Steinar o.fl.), glens og gaman,
- Óðinn heldur enga ræðu núna.

Hvað er hægt að biðja um meira?

Planið er að mæta við skólann okkar kl. 11:00 sunnudaginn 15. júní, þegar sannkristnir mæta til messu, og leggja af stað í ferðalag korter yfir. Heimkoma er áætluð kl. 01:00 eftir miðnætti aðfaranótt mánudags, þannig að þetta eru þrettán tímar af óvissu.

Allir þurfa að vera klæddir til útivistar, en hafa skal skjóðu með og í henni sundföt og dansskóna ásamt viðeigandi fötum (Sjallabuxur (sjá lýsingu hér, efsti póstur, 3. greinaskil: http://www.skrin.is/ma78/) verða sérstaklega verðlaunaðar). Ekki þarf að hafa með mat og drykk, en gott er að hafa einhverja seðla því að hægt verður að kaupa létta söngolíu á sanngjörnu verði með kvöldmáltíðinni sem fram verður borin.

Ef af einhverjum óviðráðanlegum orsökum einhver sér sér ekki fært að vera með allan daginn verður hægt að fá upplýsingar um hvar þessi kvöldmáltíð verður fram borin, á símsvara eftir kl. 15:00 þann 15. júní. (Símanúmer gefið upp síðar.)

Kostnaður gæti orðið 10-11 þúsund íslenskar krónur á mann (á gengi dagsins í dag), en hverri krónu vel varið og engin spilling eða risna hjá nefndinni (segir tannlæknirinn). Kvöldmatur og dansskemmtun mundi kosta 6000 íslenskar krónur á mann, en þá þurfa menn að koma sér sjálfir á staðinn, og geta svo teikað rútuna heim til Akureyrar.

Innan skamms munum við í nefndinni krefja ykkur svara um hvort þið hyggist mæta í óvissuna, sem og MA-hátíðina að kvöldi 16. júní í Íþróttahöllinni.

Confused? You won't be after next week's episode of ... MA1978!