sunnudagur, 20. apríl 2008

Vissa um óvissu.....

Jæja gott fólk. Nú er farin að skapast einhver vissa í kringum óvissuferðina okkar sem fyrirhuguð er þann 15. júní næstkomandi. Ónefndur tannlæknir á Akureyri, sem gat sér nokkuð gott orð með skipulagningu óvissuferðar fyrir fimm árum, hefur eitthvað verið að spá í hlutina með fleiri norðanmönnum og vill nú koma eftirfarandi á framfæri:

- það verður mjög mjög gaman og menn fá mikið fyrir peninginn sem þetta kostar,
- útivist, létt hreyfing (Mullers-æfingar (sitjandi eða liggjandi) að beiðni Friðjóns), fagurt landslag (enda fyrir norðan), skemmtilegt fólk (við), söngur (Emma, Steinar o.fl.), glens og gaman,
- Óðinn heldur enga ræðu núna.

Hvað er hægt að biðja um meira?

Planið er að mæta við skólann okkar kl. 11:00 sunnudaginn 15. júní, þegar sannkristnir mæta til messu, og leggja af stað í ferðalag korter yfir. Heimkoma er áætluð kl. 01:00 eftir miðnætti aðfaranótt mánudags, þannig að þetta eru þrettán tímar af óvissu.

Allir þurfa að vera klæddir til útivistar, en hafa skal skjóðu með og í henni sundföt og dansskóna ásamt viðeigandi fötum (Sjallabuxur (sjá lýsingu hér, efsti póstur, 3. greinaskil: http://www.skrin.is/ma78/) verða sérstaklega verðlaunaðar). Ekki þarf að hafa með mat og drykk, en gott er að hafa einhverja seðla því að hægt verður að kaupa létta söngolíu á sanngjörnu verði með kvöldmáltíðinni sem fram verður borin.

Ef af einhverjum óviðráðanlegum orsökum einhver sér sér ekki fært að vera með allan daginn verður hægt að fá upplýsingar um hvar þessi kvöldmáltíð verður fram borin, á símsvara eftir kl. 15:00 þann 15. júní. (Símanúmer gefið upp síðar.)

Kostnaður gæti orðið 10-11 þúsund íslenskar krónur á mann (á gengi dagsins í dag), en hverri krónu vel varið og engin spilling eða risna hjá nefndinni (segir tannlæknirinn). Kvöldmatur og dansskemmtun mundi kosta 6000 íslenskar krónur á mann, en þá þurfa menn að koma sér sjálfir á staðinn, og geta svo teikað rútuna heim til Akureyrar.

Innan skamms munum við í nefndinni krefja ykkur svara um hvort þið hyggist mæta í óvissuna, sem og MA-hátíðina að kvöldi 16. júní í Íþróttahöllinni.

Confused? You won't be after next week's episode of ... MA1978!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvar skrái ég mig í óvissuferðina vissu????? Ég mæti að sjálfsögðu og með minn mann.

Hlakka til að sjá ykkur öll

Herdís Herbertsdóttir